Traustur rekstur við krefjandi aðstæður

Hagnaður af grunnrekstri  Landsvirkjunar á fyrri árshelmingi nam 19,9 milljörðum króna og handbært fé frá rekstri 22,7 milljörðum.

Áfram lækka nettó skuldir, eiginfjárhlutfall er 62,2% og skuldsetning er  1,44× rekstrarhagnaður fyrir afskriftir.

Erfið staða í vatnsbúskap fyrirtækisins og skerðingar sökum hennar settu nokkurn svip á afkomuna á fyrri hluta ársins.

Hörður Arnarson, forstjóri:

„Rekstur Landsvirkjunar á öðrum ársfjórðungi gekk vel við nokkuð krefjandi aðstæður. Eftir tvö einstök rekstrarár í sögu fyrirtækisins er afkoman áfram góð. Hagnaður af grunnrekstri á fyrri árshelmingi var 143,4 milljónir Bandaríkjadala, eða 19,9 milljarðar króna og dróst saman um 27%. Rekstrartekjur námu 279,1 milljón dala, eða 38,8 milljörðum króna, samanborið við 331,8 milljónir dala á sama tímabili í fyrra.

Þröng staða í vatnsbúskapnum setti mark sitt á reksturinn á fyrri hluta ársins. Tekjur af raforkusölu drógust saman vegna skerðingar á afhendingu rafmagns af þeim sökum, auk þess sem verðtenging við Nordpool-markaðinn í samningi við einn stórnotanda féll niður í lok síðasta árs. Þá lækkuðu innleystar áhættuvarnir frá fyrra ári, sem hafði áhrif til tekjulækkunar.“

Viðhengi